Áhersla verður á stuðning, hlýju og virðingu af hálfu starfsfólks við syrgjendur við afhendingu Lífsbókar. Þegar ástvinur fellur frá koma nánustu aðstandendur í höfuðstöðvar Lífsbókarinnar með staðfestingu læknis um andlát viðkomandi og afhenda starfsfólki. Staðfest verður að viðkomandi séu skráðir nánustu aðstandendur hins látna í Lífsbók hans/hennar/háns og þau sýna persónuskilríki því til sönnunar. Að því loknu fá nánustu aðstandendur Lífsbók ástvinar síns afhenta. Persónulegu bréfin eru ekki afhent nánustu aðstandendum heldur prentuð út af starfsfólki Lífsbókarinnar, innsigluð og afhent viðtakanda. Aðstandendur geta þannig skipulagt hinstu kveðjustundina og gengið frá öllum formlegum málum í samræmi við vilja ástvinarins og eiga fjársjóð minninganna til að styðja sig við í sorginni.