
Fyrir mörg okkar er mikilvægt að hinsta kveðjustund okkar verði með því sniði sem við sjálf kjósum og í takt við þau gildi sem við lifðum eftir. Það getur verið erfitt að ræða þessa hluti við ástvini þegar við erum enn á lífi. Með Lífsbókinni gefst tækifæri til þess að skrá niður okkar hinstu óskir og varðveita þær á öruggan hátt. Nánustu aðstandendur fá þær í hendurnar þegar við föllum frá og geta því hagað okkar hinstu kveðjustund eftir okkar eigin höfði. Hinsta kveðjustundin getur þannig orðið að mjög persónulegri stund í takt við lífssýn okkar, og það gerir hana einstaka fyrir ástvini.
Það er líka mikilvægt fyrir aðstandendur að hafa óskir okkar skráðar niður. Þegar við föllum frá munu þau standa frammi fyrir mörgum erfiðum ákvörðunum sem varða okkar hinstu kveðjustund og önnur formleg atriði. Við getum létt þeim lífið á þessari stundu með því að hafa okkar hinstu óskir skráðar niður og veita þeim þannig fullvissu um hvað það var sem við vildum.
Þessar óskir geta breyst eftir því sem við eldumst og aðstæður í lífi okkar breytast. Hægt er að skrá sig inn í Lífsbókina hvenær sem okkur hentar og breyta því sem þar er skráð. Þannig ganga aðstandendur að því vísu að þessar óskir séu í takt við það sem þú hefðir viljað hverju sinni.
Vilt þú jarðsetningu eða bálför? Í hvaða kirkjugarði á að jarðsetja? Á að dreifa öskunni eða gróðursetja hana ásamt tré í Minningagarði? Hvaða tré vilt þú að verði gróðursett? Hvaða lög á að spila í hinstu kveðjustundinni? Þetta eru á meðal atriða sem þarf að taka afstöðu til og hægt er að skrá í Lífsbókina.